Skórnir á hilluna hjá Zlatan

Zlatan Ibrahimovic var tilfinningaríkur þegar hann kvaddi stuðningsmenn AC Milan …
Zlatan Ibrahimovic var tilfinningaríkur þegar hann kvaddi stuðningsmenn AC Milan í kvöld. AFP/Gabriel Bouys

Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic hefur lagt skóna á hilluna en framherjinn gaf það út eftir 3:1-sigur AC Milan á Verona í lokaumferð ítölsku A-deildarinnar í kvöld.

Zlatan, sem er 41 árs, lék aðeins fjóra leiki á tímabilinu vegna meiðsla. Hann hefur mikið glímt við meiðsli undanfarin tvö ár og hefur nú ákveðið að kalla það gott eftir afar farsælan feril.

Svíinn hefur spilað fyrir stórlið á borð við Ajax, Juventus, Inter Mílanó, Barcelona, AC Milan, París SG og Manchester United. Hann hefur skorað 339 deildarmörk á ferlinum og 62 mörk í 122 landsleikjum fyrir Svíþjóð.

Zlatan varð landsmeistari í Hollandi, Spáni, Ítalíu og Frakklandi og vann fjölmarga bikarmeistaratitla. Þá vann hann Evrópudeildina með Manchester United og heimsmeistaratitil félagsliða með Barcelona. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert