Tvö íslensk mörk í norska boltanum

Valdimar Þór Ingimundarson var á skotskónum fyrir Sogndal í dag.
Valdimar Þór Ingimundarson var á skotskónum fyrir Sogndal í dag. Ljósmynd/Sogndal

Jónatan Ingi Jónsson og Valdimar Þór Ingimundarson skoruðu hvort markið fyrir sig þegar lið þeirra Sogndal lagði Start af velli í Íslendingaslag í norsku B-deildinni í fótbolta í dag.

Leikurinn endaði með sterkum sigri Sogndal, 2:1, en öll mörk leiksins voru skoruð í síðari hálfleik. Jónatan Ingi gerði fyrsta mark leiksins á 55. mínútu en Luc Mares jafnaði fyrir Start úr vítaspyrnu á 70. mínútu. Það var síðan Valdimar Þór sem gerði sigurmarkið í leiknum á 76. mínútu.

Siglfirðingurinn Bjarni Mark Antonsson var í byrjunarliði Start en hann er nýkominn til baka í liðið eftir erfið meiðsli. Sogndal er í öðru sæti B-deildarinnar með 20 stig en Start situr í sjötta sæti með 17 stig.

Þá var Júlíus Magnússon í byrjunarliði Fredrikstad er liðið tók á móti Raufoss en Júlíusi var skipt út af á 31. mínútu eftir að hafa meiðst. Leiknum lauk með 1:1-jafntefli og er Fredrikstad í 4. sæti deildarinnar með 19 stig.

Brynjólfur Darri Willumsson kom inn á sem varamaður á 69. mínútu í tapi Kristiansund gegn KFUM Oslo, 2:0. Kristiansund er í 5. sæti deildarinnar með 18 stig. Þetta var fyrsti leikur Brynjólfs á tímabilinu en hann missti af fyrstu vikum þess vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert