Messi búinn að skrifa undir?

Lionel Messi er sagður vera búinn að skrifa undir samning …
Lionel Messi er sagður vera búinn að skrifa undir samning í Sádi-Arabíu. AFP/Franck Fife

Knattspyrnumaðurinn Lionel Messi mun í vikunni ganga til liðs við sádi-arabíska félagið Al-Hilal.

Það er spænski miðillinn Sport sem greinir frá þessu en Messi, sem er 35 ára gamall, hefur verið sterklega orðaður við félagið undanfarna daga.

Messi er á förum frá Frakklandsmeisturum París SG eftir tvö ár í herbúðum félagsins en hann gekk til liðs við félagið frá Barcelona sumarið 2021.

Argentínski sóknarmaðurinn hefur einnig verið orðaður við endurkomu til Barcelona en eftir að Al-Hilal tilkynnti um brotthvarf nígeríska framherjans Odion Ighalo þykir nokkuð ljóst að Messi sé á leið til félagsins þar sem lið í Sádi-Arabíu mega aðeins vera með sjö erlenda leikmenn skráða í leikmannahópa sína.

Messi varð heimsmeistari með Argentínu í desember á síðasta ári eftir sigur gegn Frakklandi í vítaspyrnukeppni en í frétt Sport kemur meðal annars fram að hann sé búinn að skrifa undir samning í Sádi-Arabíu og að hann verði launahæsti knattspyrnumaður heims.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert