Messi vill komast aftur til Spánar

Lionel Messi.
Lionel Messi. AFP/Franck Fife

Jorge Messi, faðir og umboðsmaður Lionel Messi, hefur staðfest að sonur sinn vilji snúa aftur til spænska knattspyrnufélagsins Barcelona.

Messi hefur undanfarin tvö ár leikið með París Saint-Germain í Frakklandi en verður laus á frjálsri sölu þegar samningur hans rennur út í lok mánaðarins.

Joan Laporta, forseti Barcelona, hefur ítrekað látið hafa það eftir sér að hann vilji gjarna fá Messi til baka, en Argentínumaðurinn ótrúlegi lék með liðinu á árunum 2004 til 2021.

Á dögunum sást til Laporta og Jorge að funda í Barcelona og gaf sá síðarnefndi sig á tal við fjölmiðla að fundinum loknum.

„Auðvitað myndi hann vilja snúa aftur til Barcelona. Ég myndi líka vilja það. Við sjáum hvað setur,“ hefur Sky Sports eftir Jorge.

mbl.is