Stuttgart heldur sæti sínu

Enzo Millot skoraði tvívegis fyrir Stuttgart í kvöld.
Enzo Millot skoraði tvívegis fyrir Stuttgart í kvöld. AFP/Axel Heimken

Stuttgart mun leika áfram í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu karla eftir að hafa unnið síðari leik sinn gegn Hamburg, 3:1, í umspili um sæti í deildinni í kvöld.

Stuttgart, sem hafnaði í þriðja neðsta sæti í 1. deild, vann fyrri leikinn á heimavelli 3:0 og einvígið því samanlagt 6:1.

Eflaust hefur aðeins farið um leikmenn Stuttgart í kvöld þar sem Hamburg, sem hafnaði í þriðja sæti í B-deild, náði forystunni eftir einungis sex mínútna leik þegar Sonny Kittel skoraði og sá til þess að heimamenn leiddu með einu marki í leikhléi.

Gestirnir náðu þó vopnum sínum og voru búnir að snúa taflinu við eftir rúmlega klukkutíma leik með tveimur mörkum frá Enzo Millot.

Undir blálokin skoraði Silas Katompa Mvumpa svo þriðja mark Stuttgart og þar við sat.

Það reyndist meira en nóg og Stuttgart leikur áfram á meðal þeirra bestu á næsta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert