Frestað hjá Svövu vegna lítilla loftgæða

Svona er umhorfs í New York-borg um þessar mundir.
Svona er umhorfs í New York-borg um þessar mundir. AFP/Angela Weiss

Leik NJ/NY Gotham, sem landsliðskonan Svava Rós Guðmundsdóttir leikur með, og Orlando Pride í bandarísku NWSL-deildinni í knattspyrnu, sem átti að fara fram í nótt var frestað vegna lítilla loftgæða á New York-svæðinu.

Vegna mikilla skógarelda sem geisa nú í Kanada eru loftgæði víðs vegar í landinu og við landamæri Bandaríkjanna með allra minnsta móti og ekki farandi út fyrir hússins dyr.

Skyggni er hvarvetna afleitt enda himinninn einfaldlega appelsínugulur.

Af þessum sökum ákvað NWSL-deildin í samráði við Gotham að fresta leiknum til 9. ágúst með öryggi leikmanna, dómara og stuðningsmanna í huga.

mbl.is