Stjóri PSG rekinn þrátt fyrir meistaratitil

Christophe Galtier þungur á brún þrátt fyrir að halda utan …
Christophe Galtier þungur á brún þrátt fyrir að halda utan um verðlaunagripinn sem PSG hlaut fyrir að vinna frönsku 1. deildina. AFP/Alain Jocard

París Saint-Germain hefur ákveðið að víkja Christophe Galtier úr starfi knattspyrnustjóra karlaliðsins eftir eitt ár við stjórnvölinn.

ESPN greinir frá.

Undir stjórn Galtier varð PSG Frakklandsmeistari en á þeim bænum er það ekki viðunandi árangur þar sem stærsti titilinn, Meistaradeild Evrópu, rann liðinu úr greipum enn á ný.

Var PSG raunar ekki nálægt því að vinna Meistaradeildina á þessu tímabili þar sem liðið féll úr leik í 16-liða úrslitum eftir tvö töp fyrir Bayern München.

Það voru forráðamenn félagsins ekki sáttir við og leita nú að nýjum knattspyrnustjóra.

Julian Nagelsmann, sem stýrði einmitt Bayern í leikjunum tveimur gegn PSG, hefur verið orðaður við stöðuna.

mbl.is