Get bætt mig á öllum sviðum

Erling Haaland með enska bikarinn um síðustu helgi.
Erling Haaland með enska bikarinn um síðustu helgi. AFP/Adrian Dennis

Norski markahrókurinn Erling Haaland kveðst geta bætt sig á öllum sviðum fótboltans þrátt fyrir að hafa átt ótrúlegt tímabil sem hefur skilað honum 52 mörkum í jafnmörgum leikjum í öllum keppnum hjá Manchester City.

„Þegar ég hugsa út í það kemur mér allt saman í hug. Ég er enn ungur og get bætt mig mikið. Það er margt sem ég get gert þar sem ég þarf að bæta margt.

Ég er á fullkomnum stað til þess að bæta mig þar sem ég er að vinna með besta þjálfara og bestu leikmönnum heims. Pep [Guardiola] er með þráhyggju fyrir smáatriðum og vill ekkert fremur en að bæta þau,“ sagði Haaland í samtali við BBC Radio 5 Live.

Manchester City er þegar búið að vinna tvöfalt á tímabilinu: ensku úrvalsdeildina og ensku bikarkeppnina. Úrslitaleikur í Meistaradeild Evrópu er svo fram undan gegn Inter Mílanó annað kvöld og dreymir hann um að vinna keppnina.

„Mig hefur dreymt um það svo lengi sem ég man eftir mér. Það var í kringum árið 2008, úrslitaleikurinn þegar Chelsea mætti Manchester United. Þegar ég sá fagnaðarlætin hugsaði ég með mér að ég vildi gera þetta,“ bætti Haaland við.

Man. United vann þann úrslitaleik í vítaspyrnukeppni.

mbl.is