Þýðir ekkert að vera í sæluvímu of lengi

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og Álfhildur Rósa Kjartansdóttir í baráttu í …
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og Álfhildur Rósa Kjartansdóttir í baráttu í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og liðsfélagar hennar í Breiðablik eru komnar í undanúrslit í bikarkeppninni eftir sigur í kvöld. Liðið mætti Þrótt Reykjavík í laugardalnum og leikurinn endaði 3:0 fyrir Breiðabliki.

„Mér fannst við bara eiga leikinn frá fyrstu mínútu í rauninni. Það kom alveg kafli þar sem þær lágu á okkur en það sem hjálpaði okkur voru mörkin í byrjum.“

Áslaug Munda hefur ekki en skorað á þessu tímabili en fékk tvö tækifæri í kvöld til þess. Annað þeirra var úr aukaspyrnu sem hún tók á fínum stað beint fyrir utan teig og hitt skot hennar á markið eftir flottan sprett upp kantinn.

„Ég bara sendi boltann beint á Írisi úr aukaspyrnunni en það er bara næsti leikur og vonandi næsta aukaspyrna. Seinna færið mitt var svosem líka bara æfingabolti fyrir Írisi Dögg og núna er það bara að æfa sig aðeins betur og svo, aftur, kemur bara næsti leikur,“ sagði Áslaug Munda hlæjandi.

Áslaug Munda spilaði ekki mínútu í síðasta leik liðsins sem var gegn ÍBV í deildinni vegna meiðsla en í dag spilaði hún allan leikinn.

„Ég er að koma til baka eftir meiðsli en var betri í dag og náði 90 mínútum sem er gott. Ég hef bara aldrei verið betri,“ sagði Áslaug eftir leikinn.

Þróttur og Breiðablik mætast aftur næstkomandi miðvikudag en þá í deildinni.

„Það þýðir ekkert að vera í einhverri sæluvímu of lengi, Þróttur mætir líklegast í næsta leik í hefndarhug og við verðum að vera tilbúnar að mæta þeim í hörkuleik á miðvikudaginn."

mbl.is
Loka