Einungis byrjunin hjá Andra Lucasi

Andri Lucas Guðjohnsen í leik með íslenska U21-árs landsliðinu.
Andri Lucas Guðjohnsen í leik með íslenska U21-árs landsliðinu. mbl.is/Eyþór Árnason

Knattspyrnumaðurinn Andri Lucas Guðjohnsen hefur farið einkar vel af stað með Íslendingaliði Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni.

Í gær skoraði hann sigurmarkið í 1:0-sigri á Hvidovre í deildinni og hafði í síðasta deildarleik á undan skorað eina mark Lyngby í 1:1 jafntefli við Nordsjælland.

„Það er góð tilfinning að hafa skipt yfir til Lyngby. Þetta er virkilega gott umhverfi fyrir mig að vera í núna. Ég hef 100 prósent trú á liðinu og starfsliðinu og það gildir líka í hina áttina.

Þeir hafa jafn mikla trú á mér og ég hef á þeim. Þegar allt er tekið saman  hefur þetta farið vel af stað,“ sagði Andri Lucas í samtali við danska miðilinn bold.dk.

Andri Lucas hefur leikið fjóra deildarleiki og skorað í þeim mörkin tvö auk þess að leika einn bikarleik fyrir Lyngby, þaðan sem hann er að láni frá sænska Íslendingaliðinu Norrköping.

Einnig skoraði Andri Lucas í 2:1-sigri íslenska U21-árs landsliðsins á Tékklandi á dögunum og virðist því sannarlega búinn að finna markaskóna sína.

„Það er gott fyrir sóknarmann að setja saman fjölda leikja þar sem maður skorar, þannig að þetta lofar góðu. Stundum ertu kaldur og stundum ertu heitur og núna virðist sem ég sé búinn að finna mitt besta form.

En þetta er einungis byrjunin. Ég vil meira og skora fleiri mörk fyrir þetta félag,“ bætti Andri Lucas við.

mbl.is