Gylfi á undan áætlun

Gylfi Þór Sigurðsson hefur æft vel undanfarnar vikur.
Gylfi Þór Sigurðsson hefur æft vel undanfarnar vikur. Ljósmynd/Lyngby

Það styttist óðum í að Gylfi Þór Sigurðsson leiki sinn fyrsta knattspyrnuleik sem atvinnumaður í tvö ár, en miðjumaðurinn er á mála hjá Lyngby í Danmörku.

Gylfi hefur verið að glíma við meiðsli síðan hann samdi við Lyngby fyrr í mánuðinum, en hann er allur að koma til og er væntanlegur á völlinn fljótlega.

„Við erum á undan áætlun með Gylfa,“ sagði Freyr Alexandersson, þjálfari Lyngby, í samtali við BT í Danmörku eftir 1:0-sigur liðsins á Hvidovre í dönsku úrvalsdeildinni í gær.

„Hann gæti auðveldlega verið í hópnum næsta föstudag. Vonandi gengur það upp. Ef ekki, þá verður hann klár í næsta leik eftir það. Hann lítur vel út og hefur æft á fullu með liðinu síðustu daga.

Hann hefur lagt mjög mikið á sig undanfarnar þrjár vikur og nú vonum við bara að hann meiðist ekki aftur. Þetta hefur verið undirbúningstímabil hjá honum, en hann verður mættur á völlinn fyrr en varir,“ sagði Freyr.

Freyr Alexandersson þjálfar Lyngby.
Freyr Alexandersson þjálfar Lyngby. Ljósmynd/Lyngby BK
mbl.is