Lærisveinar Mourinhos jöfnuðu met

Romelu Lukaku fagnar marki sínu í gærkvöldi.
Romelu Lukaku fagnar marki sínu í gærkvöldi. AFP/Andreas Solaro

Roma vann sinn fyrsta sigur í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu karla með glæsibrag í gærkvöldi þegar liðið hafði auðveldlega betur gegn Empoli, 7:0.

Strax varð ljóst í hvað stefndi þar sem Paulo Dybala og Renato Sanches komu Rómverjum í 2:0 eftir aðeins átta mínútna leik.

Áður en fyrri hálfleikur var úti kom þriðja markið þegar Alberto Grassi varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Dybala bætti við öðru marki sínu og fjórða marki Roma snemma í síðari hálfleik áður en Bryan Cristante, Gianluca Mancini og Romelu Lukaku komust allir á blað.

Um fyrsta mark Lukaku var að ræða eftir að hann kom að láni frá Chelsea í síðasta mánuði.

Með sigrinum jafnaði Roma, sem Portúgalinn José Mourinho stýrir, met yfir stærstu sigrana í ítölsku A-deildinni frá því að byrjað var að gefa þrjú stig fyrir sigur árið 1994.

Var þetta í níunda sinn sem lið vinnur 7:0 í deildinni frá þeim tíma.

mbl.is