Mikil dramatík í toppslag Íslendingaliðsins

Alex Þór Hauksson er leikmaður Öster.
Alex Þór Hauksson er leikmaður Öster. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Öster og Västerås skildu jöfn, 2:2, á heimavelli fyrrnefnda liðsins í toppslag í B-deild Svíþjóðar í fótbolta í kvöld.

Västerås komst í 2:0 og stefndi allt í útisigur, því staðan var 2:1 fram að sjöundu mínútu uppbótartímans er Miloje Prekovic jafnaði í 2:2.

Alex Þór Hauksson kom inn á hjá Öster á 72. mínútu og Þorri Mar Þórisson á 84. mínútu. Srdjan Tufegdzic, sem var lengi leikmaður og þjálfari á Íslandi og talar nánast reiprennandi íslensku, stýrir Öster.

Öster er í þriðja sæti deildarinnar með 40 stig, fimm stigum á eftir Västerås sem er í öðru sæti. Utsikten er á toppnum með einu stigi meira en Västerås. 

mbl.is
Loka