Óskuðu Greenwood dauða

Mason Greenwood í leik með Manchester United.
Mason Greenwood í leik með Manchester United. AFP

Spænska knattspyrnufélagið Osasuna stendur frammi fyrir refsingu vegna níðsöngva stuðningsmanna þess í garð Masons Greenwoods, leikmanns Getafe, í leik liðanna í 1. deildinni í gær.

Greenwood kom inn á sem varamaður hjá Getafe seint í leiknum við mikil fagnaðarlæti stuðningsmanna félagsins.

Á sama tíma sungu nokkrir stuðningsmenn Osasuna: „Deyðu Greenwood“.

The Athletic greinir frá því að spænska 1. deildin sé nú með málið til skoðunar eftir að eftirlitsmaður deildarinnar heyrði söngvana og að Osasuna megi því eiga von á refsingu í framhaldinu.

Greenwood, sem er að láni frá Manchester United, var að leika sinn fyrsta leik frá því í janúar árið 2022 eftir að hann var handtekinn í þeim mánuði, grunaður um tilraun til nauðgunar og líkamsárás.

Málið var látið niður falla í vor á þessu ári eftir að lykilvitni dró sig í hlé.

mbl.is