Fimm í fyrsta leiknum - markmaðurinn jafnaði

Júlian Álvarez skoraði fyrstu tvö mörk Manchester City í riðlakeppninni …
Júlian Álvarez skoraði fyrstu tvö mörk Manchester City í riðlakeppninni og hér fagna leikmenn liðsins því fyrra. AFP/Paul Ellis

Spánarmeistarar Barcelona og Englands- og Evrópumeistarar Manchester City hófu riðlakeppni Meistaradeildar karla í fótbolta í kvöld með mörkum og sigrum.

City lenti samt óvænt undir gegn Rauðu stjörnunni frá Belgrad í lok fyrri hálfleiks þegar Osman Bukari slapp inn fyrir vörn enska liðsins og skoraði. Júlian Álvarez jafnaði fyrir City strax í byrjun síðari hálfleiks, bætti við marki á 60. mínútu og  Rodri skoraði síðan, 3:1, á 73. mínútu.

Barcelona var aðeins 22 mínútur að afgreiða belgíska liðið Antwerp því þá var staðan orðin 3:0. Joao Felix og Robert Lewandowski skoruðu og þriðja markið var sjálfsmark eftir fyrirgjöf frá Raphinha. Gavi og Joao Felix bættu við mörkum fyrir miðjan síðari hálfleik og þarvið sat, 5:0.

Mesta ævintýrið var í Róm þar sem markvörður heimamanna í Lazio, Ivan Provedel, jafnaði á lokasekúndum uppbótartíma gegn Atlético Madrid frá Spáni, 1:1, með skalla eftir fyrirgjöf frá Luis Alberto. Þetta var síðasta snerting leiksins!

París SG lagði Dortmund að velli í París, 2:0. Mörkin komu á fyrstu þrettán mínútum síðari hálfleiks, Kylian Mbappe úr vítaspyrnu og Achraf Hakimi voru þar að verki.

Skoska liðið Celtic missti tvo menn af velli með rauð spjöld með stuttu millibili um miðjan síðari hálfleik gegn Feyenoord í Rotterdam. Staðan var þá 1:0 fyrir Hollendingana sem voru fljótir að bæta við marki og unnu 2:0.

Úrslitin í kvöld:

E-riðill:
Lazio - Atlético Madrid 1:1
Feyenoord - Celtic 2:0

F-riðill:
AC Milan - Newcastle 0:0
París SG - Dortmund 2:0

G-riðill:
Young Boys - RB Leipzig 1:3
Manchester City - Rauða stjarnan 3:1

H-riðill:
Barcelona - Antwerp 5:0
Shakhtar Donetsk - Porto 1:3

mbl.is