Heimsmeistararnir hyggjast ekki spila

Leikmenn Spánar fagna heimsmeistaratitlinum í síðasta mánuði.
Leikmenn Spánar fagna heimsmeistaratitlinum í síðasta mánuði. AFP/Philippe Marcou

Leikmenn heimsmeistara Spánar í knattspyrnu kvenna, sem voru á meðal þeirra sem undirrituðu yfirlýsingu þess efnis að þeir hygðust ekki spila fyrir landsliðið uns róttækar breytingar verði gerðar hjá spænska knattspyrnusambandinu, segjast enn ekki ætla að spila fyrir landsliðið þrátt fyrir að hafa verið valdir í 23-manna leikmannahóp fyrir verkefni í Þjóðadeild UEFA síðar í mánuðinum.

Á föstudag í síðustu viku skrifuðu 39 leikmenn undir opið bréf til spænska sambandsins og sögðust þar ekki gefa kost á sér í landsliðið á meðan ekki væri nægilega mikið gert til þess að sjá til þess að þeir finni fyrir öryggi og virðingu í sinn garð.

Þrátt fyrir það valdi Montse Tomé, nýr landsliðsþjálfari spænsku heimsmeistaranna, 21 af leikmönnunum 39 sem skrifuðu undir yfirlýsinguna í 23-manna leikmannahóp sinn.

Þar af eru 15 leikmenn sem urðu heimsmeistarar í síðasta mánuði.

Báðir aðilar leita réttar síns

Þrátt fyrir að Luis Rubiales hafi sagt starfi sínu sem forseti spænska knattspyrnusambandsins lausu og þjálfarinn Jorge Vilda verið rekinn finnst leikmönnum sem enn hafi lítið breyst hjá sambandinu.

Af þeim sökum fundu leikmennirnir sem rituðu opna bréfið á föstudag sig knúna til þess að gefa út aðra yfirlýsingu í gær.

Þar kom fram að sniðganga þeirra sé enn í gildi. „Við hörmum það að vera enn á ný sett í stöðu sem við vildum aldrei vera í,“ sagði meðal annars í yfirlýsingunni.

Töluverð kergja er milli leikmanna og sambandsins þar sem báðir aðilar hyggjast leita réttar síns; leikmennirnir vegna þess sem þeir telja ólöglegt val á sér og sambandið vegna þess að það telur leikmennina ekki eiga rétt á því að hafna því að spila fyrir landsliðið.

mbl.is