Klopp myndi elska að komast í úrslitaleikinn

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP/Adrian Dennis

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir sína menn koma til með að sýna Evrópudeildinni og andstæðingum sínum í keppninni alla sína virðingu og myndi gjarna vilja komast alla leið í úrslitaleikinn.

Liverpool mistókst að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn í sex ár og leikur því í Evrópudeildinni þetta tímabilið.

„Fyrst og fremst tel ég það mikilvægt að við göngum úr skugga um að við virðum keppnina með viðeigandi hætti og virðum andstæðingana sömuleiðis.

Ég myndi auðvitað elska það að komast í úrslitaleikinn en ég hef ekki hugmynd um hvort við náum því þar sem það verður fjöldinn allur af stórkostlegum fótboltaliðum sem stendur á milli okkar og þess markmiðs.

Við verðum því að sjá til þess að við stöndum okkur vel,“ sagði Klopp í samtali við TNT Sports.

Liverpool hefur leik í E-riðli Evrópudeildarinnar með útileik gegn LASK í Linz í Austurríki á fimmtudaginn.

mbl.is