Stig á erfiðum útivelli í fyrsta leiknum í 21 ár

Sven Botman hjá Newcastle og Olivier Giroud hjá AC Milan …
Sven Botman hjá Newcastle og Olivier Giroud hjá AC Milan í hörkunávígi á San Siro í kvöld. AFP/Gabriel Bouys

Enska liðið Newcastle náði stig á útivelli í sínum fyrsta leik í 21 ár í Meistaradeild karla í fótbolta í kvöld þegar það sótti heim AC Milan til Ítalíu.

Viðureign liðanna endaði með markalausu jafntefli en ljóst er að hart verður barist um hvert stig í F-riðlinum. Hin tvö liðin eru París SG og Dortmund en viðureign þeirra hefst í París klukkan 19.

Litlu munaði að Sean Longstaff tryggði Newcastle sigur í lok uppbótartímans en Mike Maignan í marki AC Milan varði glæsilega frá honum. Það var eina skot Newcastle sem hitti á mark Ítalanna í leiknum.

Þýska liðið RB Leipzig gerði góða ferð til Bern í Sviss og vann þar Young Boys, 3:1, í G-riðli. Mohamed Simakan, Xaver Schlager og Benjamin Sesko skoruðu fyrir Leipzig en Meschack Elia skoraði jöfnunarmark fyrir svissneska liðið í fyrri hálfleik.

Með þeim í G-riðli eru Manchester City og Rauða stjarnan sem hefja leik í Manchester klukkan 19.

mbl.is