„Vernda mig frá hverju?“

Jenni Hermoso fagnar marki í leik með spænska landsliðinu.
Jenni Hermoso fagnar marki í leik með spænska landsliðinu. AFP/Jaime Reina

Jenni Hermoso, leikmaður heimsmeistara Spánar í knattspyrnu kvenna, segir ekkert hafa breyst hjá spænska knattspyrnusambandinu þó Luis Rubiales hafi sagt af sér sem forseti þess og þjálfarinn Jorge Vilda verið rekinn úr starfi.

Montse Tomé, nýr landsliðsþjálfari Spánar, valdi alls 21 leikmann í 23-manna leikmannahóp sinn fyrir verkefni liðsins síðar í mánuðinum sem eiga það sameinlegt að hafa skrifað undir yfirlýsingu þess efnis að þær hygðust ekki spila fyrir landsliðið á meðan þeir upplifi ekki öryggi eða virðingu í sinn garð.

Hermoso, sem Rubiales kyssti á munninn í hennar óþökk eftir að Spánn tryggði sér heimsmeistaratitilinn í Sydney í Ástralíu í síðasta mánuði, er ekki á meðal þeirra leikmanna sem voru valdir að þessu sinni.

Gefur lítið fyrir skýringar þjálfarans

Alls eru 15 heimsmeistarar í leikmannahópnum en Hermoso er ekki ein þeirra. Þó hún sé sannarlega ein þeirra sem gefur ekki kost á sér gaf Hermoso lítið fyrir útskýringuna á því hvers vegna hún var ekki valin í leikmannahópinn að þessu sinni.

Tomé sagði það vera til þess að vernda hana en Hermoso benti á hversu skökku það skjóti við þar sem spænska knattspyrnusambandið hafði í yfirlýsingu lofað leikmönnum „öruggu umhverfi.“

„Vernda mig frá hverju? Og hverjum?“ velti Hermoso fyrir sér.

mbl.is