Danska ríkissjónvarpið fjallaði á dögunum um leikmenn sem hafa þurft að sæta lögreglurannsókn í málum sem enda án ákæru og stöðu þeirra í knattspyrnuheiminum. Var sérstaklega fjallað um Gylfa Þór Sigurðsson, sem samdi við Lyngby á dögunum.
„Við höfum verið spennt að sjá viðbrögðin, bæði frá stuðningsmönnum og samfélaginu. Vonandi kynnir fólk sér þetta áður en það segir eitthvað heimskulegt,“ sagði Andreas Byder, framkvæmdastjóri danska knattspyrnufélagsins Lyngby, í samtali við danska ríkissjónvarpið.
Ummælin lét Byder falla um Gylfa, sem hefur ekki leikið knattspyrnu sem atvinnumaður í tvö ár, eða síðan hann var handtekinn vegna gruns um kynferðisbrot á ólögráða einstaklingi.
Gylfi var í farbanni á Englandi í tvö ár, en málið var að lokum látið niður falla og hann samdi við Lyngby, sem Freyr Alexandersson þjálfar.
Lyngby kynnti sér vel kosti og mögulega galla við að fá Gylfa til liðs við sig, en Byder viðurkenndi félagaskipting gætu haft ákveðna áhættu í för með sér fyrir félagið, þegar kemur að markaðsmálum. Að lokum var þó niðurstaðan að semja við leikmanninn.
Gylfi hefur ekki getað spilað með Lyngby til þessa vegna meiðsla, en hann gæti spilað sinn fyrsta leik á föstudaginn kemur.