Ekki mættir til að liggja í sólbaði og sötra bjór

Gísli Eyjólfsson.
Gísli Eyjólfsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breiðablik hefur leik í B-riðli Sambandsdeildar karla í knattspyrnu í kvöld þegar liðið mætir Maccabi Tel Aviv í Tel Aviv í Ísrael.

„Þetta verkefni leggst virkilega vel í mig,“ sagði Gísli Eyjólfsson, miðjumaður Blika, í samtali við Morgunblaðið.

Blikar ætla sér því ekki að pakka í vörn gegn einu besta liði Ísraels.

„Við erum komnir þetta langt af því að við höfum verið trúir eigin hugmyndafræði og við ætlum ekki að breyta út af vananum núna. Við spiluðum okkar leik gegn Köbenhavn sem dæmi og þó það hafi ekki skilað okkur sigri þá var frammistaðan góð gegn einu besta liði Skandinavíu og við sýndum og sönnuðum það fyrir okkur sjálfum að við getum strítt hvaða liði sem er ef við erum trúir okkur sjálfum.

Við ætlum okkur því að halda í boltann á móti Tel Aviv og reyna að spila okkur út úr fyrstu pressunni þeirra. Ef það gengur eftir þá gæti myndast pláss fyrir framan vörnina þeirra sem við getum svo sannarlega nýtt okkur. Við höfum trú á verkefninu og við erum ekki komnir hingað til þess að liggja í sólbaði og sötra bjór. Við ætlum okkur að gera þetta almennilega og ná í einhver úrslit,“ sagði Gísli.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Loka