Gylfi: Vildi vera nálægt dóttur minni og eiginkonu

Gylfi Þór Sigurðsson á æfingu með Lyngby.
Gylfi Þór Sigurðsson á æfingu með Lyngby. Ljósmynd/Lyngby

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson verður í leikmannahópi danska liðsins Lyngby í fyrsta skipti á morgun er liðið leikur við Vejle í dönsku úrvalsdeildinni.

Gylfi var í löngu viðtali við sjónvarpsstöð félagsins við tilefnið, en hann hefur verið í herbúðum danska félagsins frá því í lok síðasta mánaðar.

„Þetta hefur verið mjög gott. Æfingarnar hafa verið góðar og leikmennirnir eru góðir. Kaupmannahöfn er skemmtilegt og það er ekki yfir neinu að kvarta,“ byrjaði Gylfi.

Hann segir Frey Alexandersson, þjálfara Lyngby, og Alfreð Finnbogason, fyrrverandi leikmann liðsins, hafa átt stærstan þátt í félagaskiptunum.

„Það er aðallega Frey að þakka og svo talaði ég við Alfreð líka. Þeir höfðu góða hluti um félagið að segja og þetta var réttur staður fyrir mig. Ég vil komast í form og spila fótbolta aftur. Alfreð sagði mér að Freyr vildi fá mig á æfingar. Ég spjallaði svo við Frey og ég samþykkti að mæta á æfingar. Það var fljótt að gerast eftir það,“ útskýrði Gylfi.

Fékk mörg tilboð

Hann hafði úr fleiri tilboðum að velja, m.a. á Íslandi. Þar leið honum vel eftir að hafa verið í farbanni á Englandi í tvö ár, vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi.

„Það var áhugi á Íslandi og það kom til greina, því ég vildi vera nálægt dóttur minni og eiginkonu. Mér leið vel á Íslandi. Svo voru einnig tilboð í Evrópu og utan Evrópu.“

Þarf að vera þolinmóður

Gylfi vonast til að ná fyrri styrk, en viðurkennir að það geti tekið sinn tíma.

„Við verðum að bíða og sjá. Vonandi næ ég að skora eitthvað. Ég verð að vera þolinmóður og við sjáum hvernig þetta verður næstu 4-6 vikur. Ég er að komast af stað á ný eftir tveggja ára fjarveru. Það mun taka sinn tíma að komast aftur í mitt besta form,“ sagði hann.

Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

mbl.is