Kallaði leikvanginn skítaholu – kærastan fengið morðhótanir

Kamil Grabara pirraður eftir að Galatasaray jafnaði metin í gærkvöldi.
Kamil Grabara pirraður eftir að Galatasaray jafnaði metin í gærkvöldi. AFP/Yasin Akgul

Kamil Grabara, markvörður FC Köbenhavn í knattspyrnu karla, er ekki vinsæll hjá stuðningsmönnum Galatasaray eftir leik liðanna í Meistaradeild Evrópu í gærkvöldi.

Leikurinn fór fram á heimavelli Galatasaray í Istanbúl í Tyrklandi og lauk með jafntefli 2:2, eftir að Köbenhavn hafði náð tveggja marka forystu.

Á Instagram-aðgangi sínum skrifaði Grabara eftir leik að Köbenhavn hafi átt skilið að fara með öll þrjú stigin heim frá „þessari skítaholu“. Síðar uppfærði hann færslu sína þar sem búið var að breyta orðinu „skítaholu“ í „skítaleik“.

Á blaðamannafundi fyrir leik hafði markvörðurinn einnig sagst hafa heyrt að stuðningsmenn Fenerbahce væru mun betri en stuðningsmenn Galatasaray, en liðin eru erkifjendur.

„Drepum þig og manninn þinn“

Hefur Grabara af þessum sökum fengið fjölda ljótra skilaboða frá stuðningsmönnum Galatasaray en það er ekki allt og sumt þar sem kærasta hans, Dominika Robak, greindi frá því á Instagram-aðgangi sínum að hún hefði fengið um 300 skilaboð og athugasemdir eftir færslu kærastans.

Þar á meðal er fjöldi morðhótana og birti Robak nokkur dæmi:

„Við drepum þig og manninn þinn, bíddu bara.“

„Segðu Kamil að hann deyi brátt. Við vitum hvar fjölskylda hans býr. Hræðilegir hlutir munu henda hann og fjölskyldu.“

„Sæl kerling. Við gereyðum fjölskyldu þinni.“

„Gættu þín og mannsins þíns. Ég mun leita ykkar í Kaupmannahöfn og þú getur reitt þig á að þið finnist.“

mbl.is