Fögnuðu Gylfa meira en markinu

Gylfi Þór Sigurðsson er afar vinsæll hjá Lyngby.
Gylfi Þór Sigurðsson er afar vinsæll hjá Lyngby. Ljósmynd/Lyngby

Gylfi Þór Sigurðsson er orðinn afar vinsæll hjá stuðningsmönnum danska knattspyrnuliðsins Lyngby, en hann kom inn á sem varamaður á 71. mínútu er liðið gerði 1:1-jafntefli við Vejle í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Leikurinn var sá fyrsti hjá Gylfa í atvinnumennsku í rúm tvö ár, en hann fékk afar góðar viðtökur frá stuðningsmönnum Lyngby þegar hann kom inn á.

Blaðamaður Tipsbladet í Danmörku segir stuðningsmenn Lyngby hafa látið meira í sér heyra þegar Gylfi kom inn á, heldur en þegar Andri Lucas Guðjohnsen skoraði mark liðsins fyrr í leiknum.

mbl.is