Gat ekki beðið eftir myndunum

​Pelé og George Valdimar með heimsbikarinn í Bandaríkjunum árið 1994.
​Pelé og George Valdimar með heimsbikarinn í Bandaríkjunum árið 1994.

„Eftirvæntingin sem nærvera Pelés skapaði á hverjum einasta leikvangi sem hann spilaði á er ógleymanleg. Sama hver borgin var, allir komu fram við Pelé eins og hann væri þar fæddur og uppalinn. Sjálfur svaraði hann með virðingu og áhuga sem varð oftar en ekki til þess að aðdáendur hans risu úr sætum og sungu „Pélé, Pelé,“ aftur og aftur. Þetta var engu líkt.“

Þetta segir bandarísk/íslenski ljósmyndarinn George Valdimar Tiedemann sem í næsta mánuði sendir frá sér bók um tímabilin þrjú sem brasilíska knattspyrnugoðsögnin lék í Bandaríkjunum, 1975-77, með New York Cosmos. Bókin nefnist Pelé, His North American Years – a tribute eða Pelé, árin hans í Norður-Ameríku – virðingarvottur, og burðarefnið í henni eru ljósmyndir George en þar er einnig að finna texta eftir bandaríska íþróttablaðamanninn Charles Cuttone. Bókin er 120 blaðsíður í stóru broti.

Að sögn George er megináherslan á þrjá mikilvægustu leikina sem Pelé spilaði vestra; frumraun hans með Cosmos, Soccer Bowl-leikinn 1977 og kveðjuleikinn á Giants Stadium. Eftir þann síðastnefnda náði George einni frægustu myndinni sem til er af goðsögninni, þar sem hann er á herðum samherja sinna með brasilíska fánann í annarri hendi en þann bandaríska í hinni. Hún prýðir að sjálfsögðu kápu bókarinnar. 

​Myndin fræga sem George tók af Pelé eftir lokaleik hans …
​Myndin fræga sem George tók af Pelé eftir lokaleik hans á ferlinum, 1977. ​© 1977 George Valdimar Tiedemann/GT Image


Hann starfaði á þessum tíma fyrir bandarísku atvinnumannadeildiina, NASL, og kveðst eiga stærsta safn mynda af Pelé frá Bandaríkja
­árum hans. „Eftir hvern einasta leik gat ég varla beðið eftir því að filman yrði framkölluð og að sjá myndirnar sem ég hafði tekið. Ég viðurkenni fúslega að ég náði ekki öllum myndunum sem ég vildi en það voru forréttindi að vera á staðnum og fá tækifæri til að upplifa og ljósmynda þessa mikilmennsku í návígi og að fanga hana þannig að komandi kynslóðir gætu notið og lært að meta,“ segir George.

Ljúfmennskan uppmáluð

Hann segir Pelé hafa verið ljúfmennskuna uppmálaða. „Ég átti alltaf ánægjuleg samskipti við Pelé og varð aldrei vitni að því að hann kæmi illa fram við blaðamenn eða ljósmyndara. Fyrir kom að öryggisverðir urðu hvumpnir en það var afar sjaldgæft. Í búningsklefanum var Pelé, með lítið annað en handklæði utan um sig, boðinn og búinn að gefa hverjum sem vildi eiginhandaráritun. Sjónvarpsviðtöl léku í höndunum á honum; hann svaraði alltaf með bros á vör, jafnvel snúnustu spurningum.“

Muhammad Ali með knött sem Pelé gaf honum eftir lokaleikinn.
Muhammad Ali með knött sem Pelé gaf honum eftir lokaleikinn. ​© 1977 George Valdimar Tiedemann/GT Image


Hlutverk ljósmyndarans er þó að vera fluga á vegg og skrásetja söguna um leið og hún gerist. „Ljósmyndun snýst um viðbragð; maður þarf að vera viðbúinn annars missir maður af myndinni! Að því sögðu þá réð maður illa við það þegar mark var skorað hinum megin á vellinum. Pelé var tilfinningaríkur leikmaður og þegar hann eða liðsfélagi hans skoraði mark var betra fyrir mann að vera viðbúinn fagnaðarlátunum og vona að hann hlypi í átt að manni. Það var spennandi að mynda hann og eins gott að aðdráttarlinsan væri í fókus, þá var manni umbunað með geggjuðum myndum. Sjálfvirki fókusinn var ekki fyrir hendi á þeim tíma.“

​George myndaði Pelé líka nokkrum sinnum í stúdíói, meðal annars þegar hann var limaður inn í Frægðarhöll knattspyrnunnar og þegar HM var að hefjast í Bandaríkjunum 1994. „Í það skipti þurfti hann að halda á heimsbikarnum með bandaríska fánann á bak við sig og hefði ekki getað verið samvinnuþýðari og örlátari á sinn tíma svo ég gæti fengið sem besta útkomu.“

Nánar er rætt við George Valdimar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: