Ljóst er að tapið gegn Dönum í Þjóðadeild kvenna í fótbolta hefur sært þýska landsliðið verulega og leikmenn þess eru staðráðnir í að sýna sínar bestu hliðar þegar það mætir Íslandi i Bochum á þriðjudaginn kemur.
Þýska liðið féll óvænt út í riðlakeppni heimsmeistaramótsins í sumar og tapaði síðan Danaleiknum, fyrsta leiknum eftir HM, 2:0 síðasta föstudag.
Í þeim leik kom á óvart hversu varnarsinnað þýska liðið var, undir stjórn aðstoðarþjálfarans Britta Carlson en Martina Voss-Tecklenburg þjálfari er í veikindaleyfi.
„Við vildum ekki treysta bara á Poppi," sagði Carlson við Kicker en þýska liðið var gagnrýnt fyrir að reyna fyrst og fremst að koma boltanum fram á Alexöndru Popp í leikjunum á HM í sumar.
„Við vildum spila út frá vörninni en það gekk ekki nógu vel. Við skutum ekki nægilega oft að marki, okkar leikmenn voru of varkárir og vantaði sjálfstraustið til að sækja af krafti. Fyrri hálfleikurinn var erfiður en sá seinni mun betri. Við hefðum verðskuldað jafntefli en leikurinn þróaðist öðruvísi. Færin voru til staðar," sagði Carlson.
Í umfjöllun Kicker segir að Þýskaland verði að vinna leikinn gegn Íslandi í Bochum, annars verði orðið langsótt fyrir liðið að vinna sér sæti á Ólympíuleikunum í París á næsta ári en Þjóðadeildin gefur einmitt keppnisrétt þar.