Albert Guðmundsson er orðaður við tvö stórlið á Ítalíu en bæði Napoli og Inter Mílanó eru sögð hafa áhuga á íslenska knattspyrnumanninum.
Ítalski miðillinn Calciomercato greinir frá þessu en Albert er á málum hjá Genoa í efstu deild á Ítalíu og kom þangað í janúar árið 2022. Hann hefur spilað vel með liðinu og hefur verið í byrjunarliði í fyrstu fimm leikjum tímabilsins.
Samkvæmt Calciomercato hafnaði Genoa tilboði frá Napoli í Albert í sumar en Napoli hefur áhuga á landsliðsmanninum. Albert var þó ekki í síðasta landsliðsverkefni þar sem hann var kærður fyrir kynferðisbrot þann 22. ágúst, málið er komið á borð ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.