Mikil pressa er á þýska kvennalandsliðinu í knattspyrnu fyrir leikinn gegn Íslandi í Bochum á morgun og landsliðsmarkvörðurinn Merle Frohms segir að þýska liðið verði að sigra, hvernig sem það fari að því.
Eftir óvenjuslæman kafla þar sem Þýskaland komst ekki í 16-liða úrslitin á HM og tapaði fyrir Dönum í Þjóðadeildinni á föstudaginn er aðeins ein leið í boði fyrir þýsku landsliðskonurnar, og hún er upp á við.
„Við erum allar að reyna okkar besta, við viljum breyta hlutunum og verðum að halda okkar striki. Það kemur að því að við njótum uppskeru erfiðisins," sagði Frohms í viðtali við Kicker.
Hún kveðst skilja vel vonbrigði stuðningsmanna liðsins, sem hafa verið ómyrkir í máli um frammistöðuna á samfélagsmiðlum, en segir að leikmennirnir deili vonbrigðunum með stuðningsfólkinu.
„Í undanförnum leikjum hefur frammistaðan ekki verið nógu góð til þess að skila okkur sigrum, en gegn Íslandi verðum við að ná í öll þrjú stigin og bregðast við þessari neikvæðni. Hvernig við förum að því skiptir minna máli. Ekkert nema sigur er nóg fyrir okkur," sagði Merle Frohms, markvörður þýska landsliðsins og Wolfsburg.