Forseti kólumbíska knattspyrnuliðsins Tigres, Edgar Páez, var skotinn til bana í kjölfar þess að karlaliðið tapaði fyrir Atlético í B-deildinni á laugardag.
Er Páez var að keyra heim í bíl sínum eftir 2:3-tap Tigres komu tveir karlmenn á mótorhjóli og skutu hann til bana nálægt heimavelli liðsins í Bogotá.
Dóttir Páez var einnig í bílnum en hún slapp ómeidd. Lögreglan í borginni rannsakar nú morðið.
„Tigres-fjölskyldan og íþróttasamfélagið er í sárum eftir þetta atvik.
Hollusta hans við liðið og skuldbindingin sem hann sýndi þegar kom að þróun íþróttarinnar á svæðinu okkar markaði órjúfanleg spor hjá öllum sem voru þeirra forrétinda aðnjótandi að hafa fengið að kynnast honum,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá Tigres.