Gríðarlega mikilvægur leikur fyrir Þjóðverja

Sydney Lohmann í leik með Þýskalandi gegn Suður-Kóreu á HM …
Sydney Lohmann í leik með Þýskalandi gegn Suður-Kóreu á HM 2023 í sumar. AFP/Patrick Hamilton

Sydney Lohmann, miðjumaður þýska kvennalandsliðsins í knattspyrnu og Þýskalandsmeistara Bayern München, segir það bráðnauðsynlegt fyrir liðið að hafa betur gegn Íslandi í dag.

„Þetta verður gríðarlega mikilvægur leikur. Við þurfum á sigri að halda og viljum sigur hvernig svo sem hann næst. Við verðum að leggja enn harðar að okkur.

Ef allir bæta sig um nokkur prósent kviknar bálið og við sýnum meiri kraft á vellinum. Við verðum að halda áfram þó einhverjir hlutir gangi ekki upp. Við þurfum að standa þétt við bakið á hverri annarri.

Það verður vissulega ekki auðvelt, en við munum leggja allt í sölurnar,“ sagði Lohmann í samtali við heimasíðu knattspyrnusambands Þýskalands.

Leikurinn gegn Íslandi er liður í annarri umferð Þjóðadeildar UEFA, hefst klukkan 16.15 og fer fram á Ruhrstadion í Bochum.

Höfum ekki annarra kosta völ

Illa hefur gengið hjá Þýskalandi að undanförnu og hóf liðið keppni í Þjóðadeildinni á 2:0-tapi fyrir Danmörku á útivelli síðastliðið föstudagskvöld.

„Við breytum engu sérstöku í undirbúningi fyrir leikinn, einbeitum okkur að einföldum hlutum og hugsum um það jákvæða og þeim styrkleikum sem við búum yfir. Við megum ekki missa trúna.

Þó það sé erfitt þá höfum við ekki annarra kosta völ. Við settumst niður og ræddum ýmsa hluti; þjálfun, hvernig við getum stutt hverja aðra betur og hvernig hverri okkar líður.

Það er mikilvægt að við göngum saman í gegnum þetta. Þegar allt kemur til alls þurfa þessi hlutir að verka saman á vellinum,“ bætti Lohmann við.

mbl.is
Loka