Gylfi Þór Sigurðsson er ekki í leikmannahópi Íslendingaliðs Lyngby fyrir leik liðsins gegn Köge 32-liða úrslitum dönsku bikarkeppninnar í knattspyrnu í dag.
Á samfélagsmiðlum Lyngby kemur fram að Gylfi Þór, Andreas Bjelland og Marcel Römer sitji hjá í kvöld auk Parfait Bizoza, sem er frá vegna meiðsla.
Hinir þrír fyrrnefndu eru ekki meiddir en verða hvíldir í dag.
Gylfi Þór er enda nýfarinn af stað og lék sinn fyrsta leik í um tvö og hálft ár þegar hann kom inn á sem varamaður í 1:1-jafntefli Lyngby við Vejle í dönsku úrvalsdeildinni síðastliðið föstudagskvöld.
Hinir Íslendingarnir, þeir Sævar Atli Magnússon, Kolbeinn Birgir Finnsson og Andri Lucas Guðjohnsen, eru allir í leikmannahópnum hjá Frey Alexandarssyni, þjálfara Lyngby, fyrir leik dagsins, sem hefst klukkan 16.