Íslendingarnir í aðalhlutverki í dramatískum bikarsigri

Andri Lucas Guðjohnsen fagnar fyrsta marki sínu í dag.
Andri Lucas Guðjohnsen fagnar fyrsta marki sínu í dag. Ljósmynd/@LyngbyBoldklub

Íslendingar voru í aðalhlutverki hjá Íslendingaliði Lyngby þegar liðið hafði betur gegn B-deilarliði Köge í 32-liða úrslitum dönsku bikarkeppninnar í knattspyrnu í Köge í kvöld.

Leiknum lauk með sigri Lyngby eftir framlengdan leik, 4:2, en staðan að loknum venjulegum leiktíma var 2:2.

Janus Seehuesen kom Köge yfir á 22. mínútu áður en Andri Lucas Guðjohnsen jafnaði metin fyrir Lyngby á 48. mínútu.

Rezan Corlu kom Lyngby svo yfir, 2:1, eftir stoðsendingu Sævars Atla Magnússonar á 56. mínútu en Marcus Gudmann jafnaði metin fyrir Köge á 89. mínútu.

Andri Lucas kom Lyngby yfir á nýjan leik strax í upphafi framlengingarinnar og Pascal Gregor bætti við fjórða markinu á 109. mínútu og þar við sat.

Andri Lucas lék allan leikinn með Lyngby, Kolbeinn Birgir Finnsson lék fyrstu 85 mínúturnar og Sævar Atli fyrstu 65 mínútur leiksins.

Freyr Alexandersson er þjálfari liðsins en Gylfi Þór Sigurðsson var ekki í leikmannahóp danska liðsins í kvöld.

mbl.is
Loka