Yrði mikill missir að Popp

Alexandra Popp, fyrirliði og helsti markaskorari Þýskalands.
Alexandra Popp, fyrirliði og helsti markaskorari Þýskalands. AFP/Patrick Hamilton

„Við vitum hverju við megum eiga von á frá Íslandi. Þetta er lið sem svipar til þess danska. Við búumst við að þær notist við sama leikkerfi en styðjist við aðeins öðruvísi leikskipulag,“ sagði Britta Carlson, aðstoðarþjálfari þýska kvennalandsliðsins í knattspyrnu.

Þýskaland tapaði 2:0 fyrir Danmörku í Viborg á föstudagskvöld í fyrstu umferð Þjóðadeildar UEFA og mætir Íslandi í annarri umferð keppninnar í Bochum klukkan 16.15 í dag.

„Við tökum jákvæðu augnablikin með okkur úr leiknum. Eftir að Danir komust í 2:0 var það í raun okkar sök að hafa ekki jafnað metin í 1:1.

Við erum ekki búnar að höggva á hnútinn sem stendur, því miður er það raunin. Sjálfstraustið er ekki sem best en við reyndum samt að styrkja liðið með því að láta leikmenn vita hvað þeir geta,“ sagði Carlson í samtali við heimasíðu knattspyrnusambands Þýskalands.

Þurfum á krafti og ástríðu hennar að halda

Orðrómur hefur verið uppi um að sóknarmaðurinn ógnarsterki, Alexandra Popp, ætli sér að leggja landsliðsskóna á hilluna að loknum leiknum gegn Íslandi. Carlson kvaðst vonast til þess að svo færi ekki.

„Það væri mikill missir að henni því hún er fyrirliði sem ryður brautina og tekur ábyrgð. Ég vona svo sannarlega að hún haldi áfram með þýska landsliðsinu lengi enn því við þurfum á henni að halda, krafti hennar og ástríðu,“ sagði aðstoðarþjálfarinn.

Carlson stýrir þýska liðinu í fjarveru þjálfarans Martinu Voss-Tecklenburg, sem er í veikindaleyfi.

mbl.is
Loka