Ég er ekki að hætta

Alexandra Popp í baráttu við Guðrúnu Arnardóttir í leiknum í …
Alexandra Popp í baráttu við Guðrúnu Arnardóttir í leiknum í Bochum í gærkvöld. Ljósmynd/Firosportphoto

Alexandra Popp, fyrirliði þýska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, ætlar ekki að leggja landsliðskóna á hilluna á næstunni. 

Fjallað var um það í þýskum fjölmiðlum fyrir leikinn gegn Íslandi í Bochum að það gæti reynst hennar síðasti landsleikur.

Popp átti erfitt uppdráttar gegn sterkum miðvörðum Íslands í leiknum og náði ekki að skora í 4:0 sigrinum en eftir leikinn vísaði hún á bug fréttum um að hún ætlaði að draga sig í hlé.

„Þetta er alveg á hreinu hvað mig varðar. Á meðan liðið þarf á því að halda að ég sé með og ég finn að ég geti tekið þátt í að koma því aftur á rétta braut mun ég halda áfram að gefa kost á mér,“ sagði Popp við fréttamenn eftir leikinn.

Vinsældir hennar meðal þýsks knattspyrnuáhugafólks komu berlega í ljós í Bochum í gærkvöld. Áhorfendur fögnuðu henni við öll möguleg tækifæri og hún fékk langöflugasta lófatakið þegar henni var skipt af velli seint í leiknum gegn Íslandi. Þetta var hennar 133. landsleikur en henni tókst ekki að bæta við mörkin sín 66 sem gera hana þriðju markahæstu konu landsliðsins frá upphafi, á eftir Birgit Prinz og Heidi Mohr.

mbl.is
Loka