Leik frestað vegna andláts leikmanns

Maddy Cusack lést fyrir viku síðan, 27 ára að aldri.
Maddy Cusack lést fyrir viku síðan, 27 ára að aldri. Ljósmynd/Sheffield United

Enska knattspyrnusambandið hefur fallist á að fresta leik Sheffield United og Crystal Palace, sem átti að fara fram í ensku B-deildinni um næstu helgi, vegna andláts leikmanns fyrrnefnda liðsins, Maddy Cusack.

Leikurinn átti að fara fram á heimavelli Palace í Lundúnum næstkomandi sunnudag en ákveðið hefur verið að fresta honum af samúðarástæðum, enda liðsmenn og starfsfólk Sheffield United harmi slegið yfir skyndilegu fráfalli Cusacks.

Hún féll frá fyrir viku síðan, aðeins 27 ára að aldri, en dánarorsök hefur ekki verið gefin opinberlega út.

Andlát Cusack er þó ekki talið hafa borið að með saknæmum hætti.

Hún hafði leikið með Sheffield United frá árinu 2019 og varð fyrsti leikmaður kvennaliðsins í sögunni til þess að leika yfir 100 leiki fyrir það.

mbl.is