Á förum eftir að félagið kallaði hann kókoshnetu

Victor Osimhen er á förum frá Napoli.
Victor Osimhen er á förum frá Napoli. AFP/Carlos Costa

Nígeríski knattspyrnumaðurinn Victor Osimhen er á förum frá Ítalíumeisturum Napoli.

Það er nígeríski fjölmiðlamaðurinn Oma Akatugba sem greinir frá þessu en hann er persónulegur vinur framherjans sem gekk til liðs við Napoli frá Lille sumarið 2020.

Forsaga málsins er sú að Osimhen, sem er 24 ára gamall, brenndi af vítaspyrnu í markalausu jafntefli liðsins gegn Bologna á útivelli í ítölsku A-deildinni um síðustu helgi.

Baðst afsökunar

Honum var svo skipt af velli eftir það og lenti saman við stjóra liðsins, Rudi Garcia, en hann baðst síðar afsökunar.

Í vikunni gerði félagið svo grín að framherjanum á samfélagsmiðlinum TikTok og kallaði hann meðal annars kókoshnetu við lítinn fögnuð framherjans sem er sagður íhuga að kæra félagið fyrir ærumeiðingar.

Akatugba greinir frá því að Osimhen hafi verið í viðræðum um nýjan samning en það sé nú af og frá að hann framlengi. Alls á hann að baki 108 leiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað 63 mörk.

mbl.is