Varði Hákon með kjafti og klóm

Hákon Arnar Haraldsson.
Hákon Arnar Haraldsson. AFP/Sebastien Salom-Gomis

Paulo Fonseca, knattspyrnustjóri Lille í Frakklandi, sat fyrir svörum á blaðamannafundi á dögunum þar sem hann var meðal annars spurður út í frammistöðu íslenska landsliðsmannsins Hákons Arnars Haraldssonar.

Hákon Arnar, sem er tvítugur, gekk til liðs við franska félagið frá Kövenhavn í Danmörku í sumar fyrir 17 milljónir evra.

Hann var talsvert gagnrýndur af frönskum fjölmiðlum eftir frammistöðu sína með Lille gegn Reims í frönsku A-deildinni á þriðjudaginn síðasta en Hákoni var skipt af velli á 63. mínútu leiksins sem lauk með sigri Reims, 2:1.

Þarf tíma til að aðlagast

„Hann er ungur og gríðarlega hæfileikaríkur leikmaður,“ sagði Fonseca þegar hann var spurður út í frammistöðu landsliðsmannsins frá því hann kom frá Köbenhavn.

„Þegar leikurinn er lokaður, gegn liði sem verst mjög aftarlega, þá er erfitt fyrir hann að finna pláss. Hann þarf hins vegar tíma til þess að aðlagast bæði deildinni og okkar leikskipulagi. 

Ég veit hversu hæfileikaríkur hann er og ég hef engar áhyggjur af honum, hann verður frábær fyrir okkur,“ bætti þjálfarinn við en Hákon hefur leikið sex leiki í frönsku 1. deildinni á tímabilinu.

mbl.is