Andri Lucas Guðjohnsen skoraði í fjórða deildarleik sínum í röð þegar Íslendingalið Lyngby vann sterkan útisigur á OB, 2:1, í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.
Andri Lucas lék allan leikinn í fremstu víglínu hjá Lyngby og kom liðinu í 2:0 á 50. mínútu.
Hefur hann nú skorað fjögur mörk í síðustu fjórum leikjum í deildinni og sex mörk í síðustu sex leikjum þegar bikarleikir eru teknir með.
Kolbeinn Birgir Finnsson lék einnig allan leikinn í liði Lyngby og Sævar Atli Magnússon kom inn á sem varamaður á 68. mínútu.
Gylfi Þór Sigurðsson lék ekki vegna meiðsla. Freyr Alexandersson þjálfar liðið.
Lyngby er í sjötta sæti deildarinnar með 15 stig eftir tíu leiki.
Eldri bróðir Andra Lucasar, Sveinn Aron, lét einnig að sér kveða þegar hann lagði upp fyrra mark Elfsborg í 2:1-sigri á Varberg í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Varberg náði forystunni snemma leiks áður en Jeppe Okkels skoraði tvívegis fyrir leikhlé.
Fyrra markið lagði Sveinn Aron upp og fór hann svo af velli á 85. mínútu.
Hákon Rafn Valdimarsson varði mark Elfsborg og Andri Fannar Baldursson lék allan leikinn á miðju liðsins.
Óskar Tor Sverrisson lék allan leikinn fyrir Varberg.
Elfsborg er áfram í öðru sæti sænsku deildarinnar, einu stigi á eftir toppliði Malmö þegar fimm umferðir eru eftir.
Þriðji Guðjohnsen-bróðirinn, Daníel Tristan, var ekki í leikmannahópi Malmö, sem vann Brommapojkarna 2:1 í kvöld. Er hann að glíma við meiðsli.