Gylfi Þór glímir við meiðsli

Gylfi Þór Sigurðsson er að glíma við meiðsli.
Gylfi Þór Sigurðsson er að glíma við meiðsli. Ljósmynd/Lyngby

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson er ekki í leikmannahóp danska félagsins Lyngby sem mætir Odense í dönsku úrvalsdeildinni á útivelli í kvöld.

Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni í dag en Gylfi Þór, sem er 34 ára gamall, er að glíma við meiðsli.

Miðjumaðurinn gekk til liðs við Lyngby í lok ágústsmánaðar en hann hefur komið við sögu í einum leik með liðinu á tímabilinu, gegn Vejle á heimavelli, þar sem hann kom inn á sem varamaður á 71. mínútu.

Snýr Gylfi aftur í landsliðið?

Åge Hareide mun á miðvikudaginn tilkynna landsliðshóp sinn fyrir komandi verkefni gegn Lúxemborg og Liechtenstein í J-riðli undankeppni EM 2024.

Gylfi Þór gæti verið valinn í hópinn í fyrsta sinn í tæplega þrjú ár en hann lék síðast með landsliðinu í 2:1-tapi gegn Danmörku í Þjóðadeildinni þann 15. nóvember á Parken í Kaupmannahöfn.

Hörður Björgvin Magnússon verður ekki með landsliðinu eftir að hafa slitið krossband og þá er óvíst hvort Jóhann Berg Guðmundsson geti tekið þátt í verkefninu vegna meiðsla.

mbl.is
Loka