Faðir Firmino lést í fjölskyldufríi

Feðgarnir José Roberto Cordeiro og Roberto Firmino á góðri stundu.
Feðgarnir José Roberto Cordeiro og Roberto Firmino á góðri stundu. Ljósmynd/Instagramsíða Roberto Firmino

Fjölskylda brasilíska knattspyrnumannsins Roberto Firmino, sem gerði garðinn frægan með Liverpool, varð fyrir gífurlegu áfalli þegar faðir hans, José Roberto Cordeiro, lést í fjölskylduferð í Dúbaí um helgina, 62 ára að aldri.

Dánarorsök hefur verið gefin upp. Fékk José Roberto hjartaáfall.

Vinnur fjölskyldan nú að því í samstarfi við yfirvöld í Dúbaí að flytja lík hans heim til Brasilíu.

Firmino var með í för í ferðinni þar sem fjölskyldan ákvað að nýta sér landsleikjahléið sem nú stendur yfir til þess að koma saman, en hann leikur um þessar mundir með Al-Ahli í Sádi-Arabíu og var ekki valinn í brasilíska landsliðið í yfirstandandi glugga.

Í nýútgefinni ævisögu Firminos, sem fjalla að mestu um átta ár hans hjá Liverpool, skrifaði sóknarmaðurinn brosmildi fallega um föður sinn:

„Það eru ekki allar hetjur sem klæðast skikkjum; sumar þeirra kallast feður. Faðir minn, José, var hetjan mín í æsku.

Hann veitti mér innblástur og var fyrirmynd mín. Örlátur, alvarlegur og heiðarlegur maður sem var trúr fjölskyldu sinni.“

mbl.is