Gerrard skiptir óvænt um skoðun

Cristiano Ronaldo og Lionel Messi.
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi. AFP

Knattspyrnustjórinn Steven Gerrard virðist hafa skipt um skoðun þegar kemur að því hver sé besti knattspyrnumaður sögunnar.

Gerrard, sem er 43 ára gamall, stýrir í dag Al-Ettifaq í efstu deild Sádi- Arabíu en tjáði Gary Neville, fyrrverandi fyrirliða Manchester United, í hlaðvarpsþætti hans á síðasta ári að Lionel Messi væri besti leikmaður sögunnar.

Gerrard gerði garðinn frægan hjá Liverpool og var fyrirliði liðsins í meira en áratug en hann er í dag fjórði launahæsti knattspyrnustjóri heims.

Hann var í viðtali við sjónvarpsstöð efstu deildar Sádi-Arabíu og þá vildi stjórinn meina að Cristiano Ronaldo væri besti leikmaður allra tíma.

„Það var gríðarlega stórt fyrir sádiarabísku deildina að fá besta leikmann heims, Cristiano Ronaldo, á sínum tíma,“ sagði Gerrard meðal annars.

mbl.is