Ítalía og Slóvenía á EM

Gianluigi Donnarrumma, markvörður Ítalíu, fagnar eftir að sætið á EM …
Gianluigi Donnarrumma, markvörður Ítalíu, fagnar eftir að sætið á EM var í höfn í kvöld. AFP/Leon Kuegeler

Ítalía og Slóvenía tryggðu sér í kvöld sæti á EM 2024 í knattspyrnu karla. Ítalíu dugði jafntefli gegn Úkraínu í C-riðli og Slóvenía vann dramatískan sigur á Kasakstan í hreinum úrslitaleik um sætið í H-riðli.

Úkraína þurfti á sigri að halda til þess að taka annað sætið af Ítalíu í C-riðli.

Eftir hörkuviðureign á BayArena í Leverkusen í Þýskalandi var niðurstaðan hins vegar markalaust jafntefli.

Ítalía fylgir því Englandi upp úr riðlinum og fer beint á EM.

Úkraína fer hins vegar í umspil A-deildar Þjóðadeildar UEFA um laust sæti í mars næstkomandi.

England var fyrir löngu búið að tryggja sér sigur í riðlinum og gerði jafntefli við Norður-Makedóníu, 1:1, í síðasta leik sínum í kvöld.

Enis Bardhi kom Norður-Makedóníumönnum yfir þegar hann fylgdi á eftir vítaspyrnu sem hann hafði sjálfur tekið og Jordan Pickford varið.

Norður-Makedónar skoruðu sjálfsmark í síðari hálfleik og þar við sat.

Dramatískt sigurmark Slóvena

Slóvenía fékk Kasakstans í heimsókn og nægði jafntefli til þess að halda öðru sætinu í H-riðli.

Undir lok fyrri hálfleiks kom Benjamin Sesko Slóvenum í forystu með marki úr vítaspyrnu.

Strax í upphafi síðari hálfleiks jafnaði Ramazan Orazov hins vegar metin fyrir Kasakstan.

Fjórum mínútum fyrir leikslok skoraði varamaðurinn Benjamin Verbic hins vegar sigurmarkið eftir glæsilegt einstaklingsframtak og 2:1-sigur Slóvena og sæti á EM var niðurstaðan.

Kasakstan fer í umspil C-deildar Þjóðadeildarinnar um laust sæti.

Í sama riðli hafði Finnland betur gegn San Marínó, 2:1, og hefur San Marínó þar með skorað í þremur keppnisleikjum í röð, sem er afar vel af sér vikið hjá verstu knattspyrnuþjóð heims samkvæmt styrkleikalista FIFA.

Íslandsvinurinn Pyry Soiri skoraði bæði mörk Finna og Filippo Berardi skoraði mark San Marínó úr vítaspyrnu undir lokin.

Finnar eru sömuleiðis á leiðinni í umspilið.

Í þriðja leik H-riðilsins í kvöld vann Norður-Írland óvæntan sigur á Danmörku, 2:0, en Danir voru þó þegar búnir að tryggja sér sæti á EM.

Isaas Price og Dion Charles skoruðu mörk Norður-Íra í síðari hálfleik.

mbl.is