Tímamótaleikur hjá Jóni Daða

Jón Daði Böðvarsson fagnar marki í leik með Bolton.
Jón Daði Böðvarsson fagnar marki í leik með Bolton. Ljósmynd/Bolton

Knattspyrnumaðurinn Jón Daði Böðvarsson lék tímamótaleik á ferli sínum í dag þegar lið hans, Bolton Wanderers, tók á móti Burton Albion í ensku C-deildinni og sigraði 1:0.

Jón Daði lék þar sinn 400. deildaleik á ferlinum og er 41. íslenski knattspyrnumaðurinn frá upphafi sem nær þeim áfanga.

Jón Daði, sem er 31 árs gamall Selfyssingur, hóf meistaraflokksferilinn 17 ára gamall með liði Selfoss í 1. deild árið 2009 og tók þá þátt í því að koma því í fyrsta skipti upp í efstu deild.

Jón Daði Böðvarsson í leik með Selfossi gegn Aftureldingu á …
Jón Daði Böðvarsson í leik með Selfossi gegn Aftureldingu á sínu fyrsta tímabili í meistaraflokki árið 2009, þá 17 ára gamall. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann lék með Selfyssingum bæði árin sem þeir léku í úrvalsdeildinni, 2010 og 2012, og í 1. deildinni árið á milli. Frá þeim tíma er Jón Daði bæði leikja- og markahæstur Selfyssinga í efstu deild karla frá upphafi með 43 leiki og tíu mörk en hann deilir markametinu með Viðari Erni Kjartanssyni, öðrum 400 leikja manni.

Jón Daði hefur leikið sem atvinnumaður frá 20 ára aldri, eða frá ársbyrjun 2013. Fyrst með Viking Stavanger í norsku úrvalsdeildinni í þrjú ár, þá eitt tímabil með Kaiserslautern í þýsku B-deildinni, eitt með Wolves í ensku B-deildinni, tvö með Reading og tvö og hálft með Millwall í sömu deild.

Frá ársbyrjun 2022 hefur Jón Daði leikið með Bolton í ensku C-deildinni. Af þessum 400 leikjum á ferlinum eru 224 í ensku deildakeppninni, 81 í þeirri norsku, 80 í þeirri íslensku og 15 í þeirri þýsku.

Jón Daði Böðvarsson í leik með Selfyssingum.
Jón Daði Böðvarsson í leik með Selfyssingum. mbl.is/Golli

Flestir leikir hans með einu félagsliði eru með Viking Stavanger, 81 talsins, 80 leikjanna eru með Selfyssingum, 69 með Millwall, 60 með Bolton, 53 með Reading, 42 með Wolves og 15 með Kaiserslautern.

Mörkin eru 66 talsins, 17 á Íslandi, 15 í Noregi, 2 í Þýskalandi og 32 í ensku deildakeppninni.

Jón Daði hefur leikið 64 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skorað í þeim fjögur mörk en hann lék með íslenska landsliðinu bæði á EM 2016 og á HM 2018.

Jón Daði Böðvarsson í baráttu við Nathaniel Chalobah í leik …
Jón Daði Böðvarsson í baráttu við Nathaniel Chalobah í leik milli Wolves og Chelsea. AFP/Ben Stensall

Jón Daði er sá fyrsti á árinu 2024 sem kemst í 400 leikja hópinn en næstur á undan honum var Jóhann Berg Guðmundsson sem lék sinn 400. leik í nóvember.

Jón Daði Böðvarsson skorar fyrir Ísland gegn Austurríki á EM …
Jón Daði Böðvarsson skorar fyrir Ísland gegn Austurríki á EM 2016 í Frakklandi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Alls náðu sex íslenskir knattspyrnumenn að spila sinn 400. deildaleik á árinu 2023 en á undan Jóhanni voru það Viðar Örn Kjartansson, Matthías Vilhjálmsson, Kristján Ómar Björnsson, Theódór Elmar Bjarnason og Birkir Bjarnason. Aldrei hafa fleiri náð þessum stóra áfanga á einu og sama árinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert