Andri Lucas á leið til Gent?

Andri Lucas Guðjohnsen
Andri Lucas Guðjohnsen Ljósmynd/KSÍ

Andri Lucas Guðjohnsen, framherji Lyngby og íslenska landsliðsins, er orðaður við belgíska liðið Gent. Belgískir fjölmiðlar fullyrða að Andri sé staddur í Belgíu til að ganga frá samningum.

Andri Lucas er markahæstur í dönsku deildinni sem stendur og þrátt fyrir að hafa gert þriggja ára samning við Lyngby í síðasta mánuði er hann sagður á förum.

Félagsskipta mógúllinn Fabrizio Romano birti á X-síðu sinni í gær að Gent hefði gert Lyngby tilboð í Andra Lucas. Nú fullyrðir hln.be að Andri sé mættur til viðræðna við belgíska liðið.

Gent er í 7. sæti belgísku úrvalsdeildarinnar og mun að öllum líkindum tryggja sér sæti í Sambandsdeild Evrópu. Félagið seldi sóknarmennina Gift Orban og Hugo Cuypers í vetur og er að leita að liðstyrk í framlínuna. Orban var seldur til Lyon og Cuypers til Chicago Fire í Bandaríkjunum.

Gangi Andri Lucas til liðs við Gent mun hann fylgja í fótspor föður síns og afa síns sem báðir léku í Belgíu. Faðir hans, Eiður Smári Guðjohnsen lék fyrir Club Brugge og Cercle Brugge á seinni stigum ferils síns en Arnór Guðjohnsen, afi Andra Lucasar, var valinn besti leikmaður Belgíu árið 1987 og lék fyrir Lokeren og Anderlecht.

Andri Lucas Guðjohnsen
Andri Lucas Guðjohnsen Ljósmynd/Alex Nicodim
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert