Seldur til Belgíu fyrir metfé

Andri Lucas Guðjohnsen á æfingu íslenska landsliðsins í London í …
Andri Lucas Guðjohnsen á æfingu íslenska landsliðsins í London í vikunni. Ljósmynd/KSÍ

Andri Lucas Guðjohnsen er orðinn dýrasti leikmaðurinn í sögu danska knattspyrnufélagsins Lyngby.

Samkvæmt Tipsbladet í kvöld er Lyngby búið að ganga frá sölu á Andra til Gent í Belgíu fyrir þrjár milljónir evra, eða um 450 milljónir íslenskra króna.

Tipsbladet segir jafnframt að Andri sé búinn að skrifa undir samning við belgíska félagið til fjögurra ára, eða til 2028.

Andri hefur því reynst Lyngby dýrmætur á fleiri en einn veg. Hann var langmarkahæsti leikmaður liðsins á nýliðnu tímabili með 13 mörk, og átti stóran þátt í að halda liðinu í úrvalsdeildinni.

Lyngby fékk Andra lánaðan frá Norrköping í Svíþjóð í ágúst í fyrra og gekk svo frá kaupum á honum í apríl. Samkvæmt Tipsbladet hagnast Lyngby um einar 400 milljónir íslenskra króna á kaupunum og sölunni á íslenska framherjanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert