„Þegar ég byrjaði í ellefu manna bolta þá fer ég frekar lítill, og ekkert sérstaklega hraustur heldur, þó ég hafi verið með mikið keppnisskap,“ sagði knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Ásgeir Börkur Ásgeirsson í Dagmálum.
Ásgeir Börkur, sem er 37 ára gamall, lagði skóna á hilluna eftir síðasta keppnistímabil en hann er hvað þekktastur fyrir tíma sinn með uppeldisfélagi sínu Fylki og var á meðal litríkustu karakteranna í íslenska boltanum lengi vel.
Ásgeir Börkur á að baki 196 leiki í efstu deild en hann átti erfitt uppdráttar, til að byrja með, í yngri flokkunum.
„Þetta voru erfið ár, þar sem ég var aðeins á eftir jafnöldrum mínum í stærð og líkamlegum þroska,“ sagði Ásgeir Börkur.
„Mamma og pabbi tala oft um það líka, hvað þetta voru erfið ár hjá mér í fótboltanum. Ég var mjög reiður og pirraður á þessum árum,“ sagði Ásgeir Börkur meðal annars.