Knattspyrnumaðurinn Guðmundur Þórarinsson ætlar ekki að framlengja samning sinn við gríska úrvalsdeildarfélagið OFI frá Krít þar sem hann hefur verið síðustu tvö tímabil.
Þetta staðfesti hann í hlaðvarpinu Þungavigtin en Guðmundur kom til OFI frá Álaborg þar sem hann var í stuttan tíma. Hann spilaði 61 leik með OFI þar sem hann skoraði tvö mörk og lagði upp átta.
Guðmundur spilaði lengi með Norrköping í Svíþjóð þar sem hann spilaði 98 leiki, skoraði fjögur mörk og lagði upp 16. Auk þess hefur hann spilað með New York City sem hann vann MLS-deildina með, Sarpsborg, Nordsjælland og Rosenborg og Selfoss og ÍBV á Íslandi.
Hann hefur ekki ákveðið hvert hann fer næst og útilokar ekkert, hvorki erlendis né heima.