Argentína í úrslitaleikinn (myndskeið)

Lionel Messi leikur listir sínar í nótt.
Lionel Messi leikur listir sínar í nótt. AFP/Al Bello

Argentína sigraði Kanada í undanúrslitum Ameríkubikarsins í fótbolta karla í New Jersey í nótt. Lionel Messi og Julian Alvarez skoruðu mörk heimsmeistarana í 2:0-sigri.

Kanadamenn byrjuðu af krafti en Argentínumenn vörðust fimlega og náðu forystunni eftir tuttugu mínútna leik með marki Alvarez. Rodrigo De Paul átti þá góða sendingu á framherjann sem sneri á varnarmann Kanada og skoraði af öryggi.

Lionel Messi bætti við öðru marki Argentínu á sjöttu mínútu síðari hálfleiks þegar hann stýrði skottilraun Enzo Férnandez fram hjá Maxime Crepeau í kanadíska markinu. Alphonso Davies fór meiddur af velli þegar tuttugu mínútur lifðu leiks sem nánast gerði út um vonir Kanadamanna að jafna metin.

Argentína mætir Kólumbíu eða Úrúgvæ í úrslitaleiknum sem fram fer aðfaranótt sunnudags en síðari undanúrslitaleikurinn er á dagskrá á miðnætti í nótt. Kanadamenn virðast vera besta lið Norður-Ameríku þessa stundina og lofar árangurinn í Ameríkukeppninni góðu fyrir heimsmeistaramótið 2026 sem haldið verður í Kanada, Bandaríkjunum og Mexíkó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert