„Heiður að taka við írska landsliðinu“

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Írlands.
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Írlands. Ljósmynd/Knattspyrnusamband Írlands

Heimir Hallgrímsson segir það heiður að taka við írska karlalandsliðinu í fótbolta í viðtali á heimasíðu írska knattspyrnusambandsins. Heimir stýrir liðinu framyfir heimsmeistaramótið 2026.

Samkvæmt yfirlýsingu knattspyrnusambandsins var Heimir efstur á óskalista sambandsins þar sem reynsla hans sem landsliðsþjálfari og árangur hafi vegið þyngst. Reynsla Heimis af því að færa landslið ofar á styrkleikalista FIFA, komast á lokakeppnir og þróa unga landsliðsmenn tali sínu máli.

„Það er heiður að taka við írska landsliðinu. Írland er réttilega stolt fótboltaþjóð sem hefur stöðugt framleitt hæfileikaríka leikmenn og átt eftirminnileg augnablik á stórmótum“. Segir Heimir á heimasíðu sambandsins.

Heimir Hallgrímsson að störfum hjá Al-Arabi
Heimir Hallgrímsson að störfum hjá Al-Arabi Ljósmynd/Al Arabi

„Við eigum ungt og spennandi lið sem getur náð langt. Ég hlakka til að vinna náið með leikmönnum liðsins og hjálpa þeim og leiðbeina. Við viljum taka þátt í stórmótum með reglulegu millibili. Við eigum spennandi leiki framundan í Þjóðardeild Evrópu síðar á árinu og undankeppni HM á næsta ári“. Bætir Heimir við.

Marc Canham, yfirmaður knattspyrnumála hjá írska knattspyrnusambandinu segir ráðningu Heimis ánægjulega fyrir sambandið.

„Það var mikilvægt fyrir okkur að ráða þjálfara sem hefur áhuga á að taka þátt í þróun írskrar knattspyrnu og taka þátt í þróun yngri landsliða okkar sem Heimir hefur mikla ástríðu fyrir“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert