Spænsku knattspyrnumennirnir Álvaro Morata og Rodri hafa verið úrskurðaðir í eins leiks bann af Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, vegna söngva í fagnaðarlátum eftir að spænska landsliðið tryggði sér Evrópumeistaratitilinn í Þýskalandi fyrr í sumar.
Spánn lagði England að velli, 2:1, í úrslitaleiknum og í fagnaðarlátunum sungu Morata og Rodri: „Gíbraltar er spænskt!“
Knattspyrnusamband Gíbraltars kvartaði undan söngvunum og hefur UEFA nú ákveðið að leikmennirnir tveir fari í leikbann.
Gíbraltar er smáríki við syðsta odda Spánar sem hefur verið undir stjórn Bretlands frá því á 18. öld, en tilheyrði áður Spáni.
Stjórnvöld á Spáni hafa löngum kallað eftir því að Gíbraltar fái að tilheyra Spáni að nýju.